Færsluflokkur: Dægurmál

Að googla

Ég fór að forvitnast um hvað google vefurinn vissi um mig og hvað langt aftur í tímann og þá uppgötvaði ég að ég hafði aðgang að blogg.is sem ég reyndar hélt að væri ekki til lengur. Auðvitað var ég búinn að gleyma aðgangsorðinu og lykilorðinu svo að ég klikkaði á gleymt lykilorð og viti menn, svar eftir mínútu eða svo. Einhvern veginn dagaði uppi löngunin í að blogga og þetta féll allt í gleymsku en ekki í dá. Kannski missti ég áhugann þegar ég uppgötvaði að það eru komnir svo frábærir bloggara fram á ritvöllinn að mér fannst ekki reynandi að keppa við þetta fólk sem margt er ritfært og málefnalegt. Ég eignaðist fáa bloggvini og vissi að mitt blogg yrði ekki lesið. Ég sé það núna að þetta er fyrir mig sjálfan og góður vettvangur til að skrá mínar vangaveltur um mál og málefni, jafnvel þó að vanti stundum þekkingu á málefnunum. Það er nú bara með mig blessaðan að ég hef aldrei getað komið mér upp almennilegri dellu í neinu, leti hugans er svo mikil að hann nennir ekki að taka þátt í neinu sem mig langar að gera. Vinstri og hægri heilinn vinna ekki nógu vel saman. Maður sér hverju fram vindur, þetta er lítið skref en skref.

Baldur G


Bull

Hverjum dettur nú í hug að þessi skoðanakönnun gæti staðist að Vinstri Grænir fengju yfir 32% atkvæða ef kosið yrði núna. Það eru minnsta kosti 15% af þessu fólki sem aldrei myndu þora að kjósa Vinstri Græna. En þetta er ágætis hótun til hinna flokkanna á,að ef ekki verður bót á stjórnarfarinu og siðleysinu íslenskri pólitík þá gæti farið illa. Ég er eiginlega alveg hissa að Vinstri Grænir skuli hafa áhuga á að taka yfir óhroðann. Ég held að V-G ættu að vanda sig betur og ég sé ekki betur að þeir séu að komast í hóp hinna spillingarflokkanna. Það myndi verða pólitískt sjálfsmorð. Ég skal taka fram að ég hef kosið V-G í undan förnum kosningum en ef þeir ætla að fara að taka við gumsinu geta þeir gleymt atkvæði mínu.Það væri óskandi að hægt væri að mynda hér öfluga hreyfingu með siðferðið í lagi , sem gæti komið á fót nýju og réttlátu Íslandi. B.G.
mbl.is Fylgi VG mælist rúmlega 32%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brynjólfur hættir störfum.

Þetta er gott að Brynjólfur Helgason gat klárað það sem hann var ráðinn til að vinna, hvað svo sem það var. En ég held að einhver sem þrífur  upp ruslið eftir pappírstætarana ættu að geyma strimlana einhversstaðar þar sem gamla liðið finnur það ekki. Kannski gefst tími til þegar búið er laga til í kerfinu að raða lengjunum saman þegar almennileg rannsókn getur farið fram. B.G.
mbl.is Innri endurskoðandi óskast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason

Mér sýnist að þarna hafi aumingja maðurinn Arnór Jónsson hlaupið óvart yfir strikið þegar hann ráðleggur Birni Bjarnasyni að skjóta sig til að gera þjóðinni greiða. Ég hef aldrei verið sammála Birni í einu né neinu í gegnum tíðina, enda erum við algerlega á öndverðum meiði í pólitík. Hann virkar á mig sem hernaðarsinni og fastur í gamla kalda stríðsfarinu. en ég er friðarins maður bæði lands og lýðs. En þetta gefur mér ekki leyfi til að vera með óþverra skítkast út í mína andstæðinga. Ef maður ætlar að koma á framfæri öndverðum skoðunum verður maður að bera ábyrgð á því sem maður lætur frá sér fara. Annars er svo sem ekki hægt að að taka mark á þessu rausi Arnórs fyrr en hann lagfærir réttritun sína. Ég gat ekki betur séð en að öll orðin hjá Arnóri væru vitlaust stafsett. B.G.
mbl.is „Gerðu þjóðini greiða og skjótu þig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátækni sjúkrahús

Þegar maður skynjar tilburði heilbrigðisráðherrans okkar og löngun hans til að færa til einkaaðila heilbrigðisþjónustuna, þá veltir maður upp ýmsum leiðum sem trúlega eru færar til að spara í þessu blessaða kerfi okkar fúlgur fjár, þá mætti hugsa sér að byggt yrði hátækni sjúkrahús sem yrði tvískipt og yrði annar helmingurinn ætlaður venjulegu fólki með venjulegar og eðlilegar tekjur en hinn hópurinn sem er með 25 miljónir í tekjur og þar yfir á ári hefðu hinn helminginn. Ríka fólkið með ofur tekjurnar mundi fá þá þjónustu sem það hefur efni á að borga, úr eigin vasa eða vösum. Þetta mundi þá vera Sagaklasi ríka fólksins þar sem dekrað yrði við það og það mundi þá borga allan kostnað þessa hluta sjúkrahússins. Ríkið mundi þá sleppa við að reka þennan hluta kerfisins. Í hinum hópnum yrðu þá þeir sem minna hafa milli handanna og sá hluti fengi eins góða þjónustu og hægt er að veita. Ríkið mundi þá greiða allan kostnað sem þyrfti án þess að loka deildum og gæti þá kannski greitt hærri laun til heilbrigðisstarfsmanna. Þennan hluta  ætti aldrei að einkavæða. En maður gæti hugsað sér að hinn hlutinn yrði einkavæddur og seldur einkaaðilum og þeir mundu þá alfarið ráða hvað þeir sem eiga peningana mundu borga fyrir þjónustuna. Og þá yrði samið auðvitað við starfsfólk um laun en þau kæmu ekki frá ríkinu heldur af innkomu sjúklingagjalda. Ég veit að ofurlaunaliðið yrði ekki ánægt en það hefur efni á þessu. það Gæti meira segja verið gott ef hægt væri að kaupa sér forgang að læknum og aðgerðum og flýtt þannig fyrir bata hjá þessu fólki svo það geti áfram haldið sinni auðsöfnun. Það er líka gott fyrir ríkiskassann. Ég veit að VG og fleiri eru ekki hrifnir af þessari hugmynd en eru þeir ekki hvort eð er á móti öllu? BG.

heilabilun

Mig langar að tala aðeins um hversu lokaður maður getur verið annað slagið ef svo ber undir. Konunni minni þykir ekki slæmt að segja frá þessu. En það var síðastliðið sumar að við vorum á húsbílnum okkar upp við Þórisstaðarvatn í Svínadal í einskonar útilegu ásamt að mig minnir dóttur minni og hennar fjölskyldu í fínu veðri. Við sváfum þarna við vatnið bæði vel og mikið. Um  morguninn eftir kom til mín nágranni minn í næsta bíl og spurði mig hvort ég ætti startkapla sem ég játti. Hann spurði mig hvort ég gæti gefið honum straum til að starta bílnum sínum í gang en hann hafði þá eitt út af rafgeyminum um nóttina við að keyra kæliboxið sitt svo að maturinn héldist ferskur. Þarna varð skammhlaup í heilanum á mér því að ég spurði manninn að því hvort hann gæti ekki keyrt bílinn sinn að hlið húsbílsins svo að kaplarnir næðu örugglega. Dæmigerð bilun ekki satt. Meeeeeeeeeeeeee.

Evran á dagskrá

Það fer vart framhjá neinum sem er að reyna að fylgjast með stjórnmálum og efnahagsmálum að sumir í þjóðfélaginu halda ekki vatni af löngun í að innleiða Evruna eða einhvern annan gjaldmiðil til að taka við af okkar heitt elskuðu krónu. Því er blákalt haldið fram að krónan sé ónýtur gjaldmiðill og ekki á vetur setjandi. Það er verið að kjafta krónuna út af borðinu með ákveðnum hætti og sérstaklega nú um stundir vegna efnahagslegra erfiðleika. Það eru sérstaklega samtök iðnaðarins og auðjöfrarnir (sem  einkum hafa þó hagnast á krónunni okkar) sem vilja krónuna feiga. Svo auðvitað bókstafstrúarmennirnir, Samfylkingin sem er látlaust með Evru glyrnur í augunum daginn út og inn. Þessu fólki er alveg sama þó að verðbólgan fari á fljúgandi ferð og seti alþýðu manna á vonarvöl. Verðbólgu markmið Seðlabankans eiga að hverfa og láta allt reka á reiðanum. Sem betur fer eru enn til flokkar sem hafa stolt til að bera til að halda í sjálfstæði okkar, það sem eftir er, og vilja halda í okkar krónu og undirstöður atvinnuvega okkar, Sjávarútveg og Landbúnaðinn án þess að fá skipanir frá Brussel um hvað megi gera eða ekki gera. Sem betur fer höfum við Davíð Oddson í Seðlabankanum til að halda verðbólgunni niðri og hófstilltan forsætisráðherra sem heldur niðri á hægan en áhrifamikinn hátt nokkrum rugludöllum og j í Sjálfstæðisflokknum og vill óbreytt ástand. Ef Geir Haarde og það fólk sem honum fylgja verða í einhverjum vandræðum með að hemja meðstjórnendur í ríkisstjórninni þá er hægur vandi að skipta um dömu sem mundi þá vera næstbesta daman á ballinu og á ég auðvitað við Vinstri græna sem mundu standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar með Sjálfstæðisflokknum. Það er kaldhæðnislegt að Framsókn skuli ljá máls á inngöngu í Evrópusambandið. Þeir hljóta þó að vita að það mundi ganga að landbúnaðinum al dauðum. Í þá gömlu góðu daga þegar Framsóknarmenn héldu vörð um sína kjósendur sem voru að mestu bændur hafði maður ekki þá tilfinningu að þeir, af öllum mönnum mundu svíkja sína. En því miður, þá urðu þeir fyrir því óláni að kjósa yfir sig formann sem hafði allt aðra og verri sýn á hlutina og heilaþvoði liðið eins og það lagði sig. Svo langar mig svona í afturendann á þessu spyrja þá menn sem vilja kasta frá sér lágri verðbólgu fyrir háa, hvort þeir muni ekki eftir því þegar verðbólgan hér var alltaf í tugum prósenta og allt að hundrað prósentum og sparifé landans brann til ösku eins og um áramótabrennu væri að ræða. Farið að hugsa, í guðsbænum.


Rasismi

Endalaust er hægt að koma mönnum á óvart í þessu þjóðfélagi. Ég fylgdist með úrslitum í laugardagslagakeppninni og fannst ákaflega lítið til koma. Ekkert laganna heillaði mig upp úr skónum og hef ég ekki mikla trú á að sigurlagið nái langt í Evrovision keppninni. Ég greiddi ekki atkvæði neinu laganna svo að mér var í rauninni sama hvað af þessu dóti kæmist áfram. En ég er samt hálft í hvoru feginn að þetta lag vann en ekki bulllögin tvö sem voru i öðru og þriðja sæti. Lagið hans Barða var svo sem í lagi ef það hefði verið flutt af alvöru listamönnum en þetta var bara bull. Það finnst mér aftur afleitt að Friðrik Ómar skuli ekki fá frið fyrir rasistum og verði að flýja úr borginni og taka símanúmerin sín úr símaskránni. Hefur íslenska þjóðin efni á að fóstra með sér rasista. Í guðsbænum farið þið sem stundið svona einelti að banka uppá í heilanum á ykkur til að vita hvort einhver er heima. Það þurfa allir að læra að tapa og mér fannst nú að Gilse.... gæti nú alveg unað við annað sætið en einhverjir áhangendur hljómsveitarinnar kunna sig ekki , því miður. B.G.


Fjölmiðla okur.

Ég er fórnarlamb fjölmiðla okurs, það fer ekki á milli mála. Við hjónin höfum verið áskrifendur stöðvar 2 í fjölda ára og töldum okkur þurfa að vera það vegna skort á fjölbreytni í dagskrárvali í ríkissjónvarpinu. það voru nýrri og betri myndir á Stöð 2 en maður hafði þó fótboltann á ríkinu, enska boltann og fleiri viðburði svo sem beinar útsendingar af landsleikjum í handbolta. Stöð 2 sýndi líka fótbolta endrum og eins, þannig að maður hafði úr ýmsu að moða. þegar 365 miðlarnir sölsuðu undir sig enska boltann og bættu við sig fleiri og fleiri Sýnarrásum, hætti hætti maður að sjá enska boltann heimsmeistarakeppnina eða yfirleitt heimsklassa knattspyrnu t.d. Afríkukeppnina í fótbolta. Það er að verða nokkur ár síðan ég sá leik í enska boltanum. þetta hefur maður látið yfir sig ganga og látið gott heita vegna þess að maður gat horft á Formúlu 1 keppnina Sjónvarpinu. En það mátti ekki svo til ganga lengur, 365 miðlarnir þurftu auðvitað að sölsa það undir sig. Nú bíður maður eftir því að þeir kaupi sjónvarpsréttinn í kvennahandboltanum og karla boltanum. Þetta væri kannski ekki alvont ef stöð 2 væri jafnt og þétt að bæta efni sitt, en því miður þetta eru eintómar endursýningar og maraþonþættir sem margir eru að verða fullsaddir af að horfa á, gamlir Friends þættir sömu raunveruleikaþættirnir ár eftir ár og sömu lögregluþættirnir árum saman sem sagt útþynnt amerískt efni. Sama má segja í rauninni með Ruv, enginn metnaður á hvorugri stöðinni. Ég er að byrja áttunda tuginn á minni æviferð og ég sé mest eftir því að geta ekki horft á góða knattspyrnu eða Formúluna það sem maður á eftir ólifað alla vega ekki í sjónvarpi. það vill mér til láns að ég get einstaka sinnum séð leiki á netinu í tölvunni minni á 17 tommu skjá. Ef maður á að fá að sjá dýrðina þarf maður að borga morð fjár í viðbót við lágkúruna. Ég vona bara að gróðinn verði sem mestur hjá ykkur. Baldur Guðm


sagan endalausa

Ég er nýkominn heim úr þriggja vikna fríi á Grand kanarí yndislegu veðri allan tímann. Mér skildist að allan tíman hefði verið illviðri hér á Fróni svo til á hverjum degi. Á kanarí hittum við bráðskemmtilegan man, sem var í sömu flugvél út og sömu heim. Hann var í sömu ferðum og við og hélt uppi fjörinu. Þessi maður þurfti ekkert áfengi til að vera kátur, hann var bara kom til dyranna eins og hann var klæddur. Ég hef reyndar alltaf borið talsverða virðingu fyrir þessum manni. Enn maðurinn er Geir Jón Yfirlögregluþjónn, gamall Vestaannaeyingur sem hann lét líka af vita. Svona menn eru gleðigjafar hverjum þeim sem kynnast þeim. En þegar ég kom heim, þá uppgötvaði ég að landar mínir eru fastir í Rei farinu. Villi greyið fær ekki flóafrið fyrir fjölmiðlum og engan stuðning frá sínu baklandi. Stuðningur Reykvíkinga er lítill. En hann á að vísu stuðning Davíðs Oddssonar sem enn virðist hafa mikil tök á Sjálfstæðisflokknum. Ég held nú að Villi eigi bara að halda sínu striki, Taka bara inn B 12 vítamín til að skerpa minnið. BG

Næsta síða »

Höfundur

Baldur Guðmundsson
Baldur Guðmundsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband